Englafjárfestar
Englafjárfestar eru einstaklingar sem fjárfesta í upprennandi sprotafyrirtækjum á byrjunarstigi. Þeir veita ekki aðeins fjármagn, heldur einnig reynslu, tengslanet og ráðgjöf sem getur skipt sköpum fyrir vöxt og árangur frumkvöðla.
Englafjárfestingar eru lykilþáttur í að knýja nýsköpun áfram og styðja við framtíðarfyrirtæki.
Hvað þýðir að vera englafjárfestir?
Englafjárfestar gegna lykilhlutverki í vistkerfi nýsköpunar. Þeir koma að borðinu snemma – áður en hefðbundnir fjármögnunarmöguleikar eru í boði – og styðja frumkvöðla með fjármagni og þekkingu.
Hlutverk þeirra nær þó langt út fyrir fjárhagslegan stuðning
Englafjárfestar:
Deila þekkingu og reynslu úr atvinnulífinu
Tengja frumkvöðla við rétta aðila og tengslanet
Veita leiðsögn og styðja við stefnumótun
Hjálpa til við að byggja fyrirtæki sem eru tilbúin til vaxtar og frekari fjármögnunar
Þeir eru oft fyrstu trúnaðarmenn frumkvöðla og styðja við bakið á hugmyndum sem annars gætu ekki orðið að veruleika. Með því að taka þátt í áhættusömum, en spennandi verkefnum, skapa englafjárfestar verðmæti – ekki aðeins fyrir sjálfa sig, heldur einnig fyrir samfélagið og hagkerfið í heild.
Hvernig virka englafjárfestingar?
Englafjárfestingar eiga sér oft stað á fyrstu stigum sprotafyrirtækis – þegar hugmyndin er tilbúin og frumkvöðullinn að hefja vegferðina.
1. Kynning
Frumkvöðull kynnir hugmynd sína og framtíðarsýn – oft í gegnum pitch viðburði sem stuðningsaðilar og samtök eins og IceBAN halda.
2. Mat og greining
Englafjárfestir metur viðskiptahugmyndina, teymið, markaðinn og áhættuna – með mögulegan arð og áhrif í huga.
3. Fjárfesting
Ef fjárfestir sér tækifæri í verkefninu og ber traust til teymisins, er næsta skref að kaupa hlut í félaginu. Algengar fjárhæðir eru á bilinu 1–20 milljónir króna, en það fer eftir umfangi og eðli verkefnisins.
4. Stuðningur og þátttaka
Fjárfestir veitir ráðgjöf, opnar dyr að tengslaneti og styður frumkvöðulinn í að taka næstu skref – hvort sem það er í vöruþróun, markaðssetningu eða frekari fjármögnun.
5. Útganga og ávöxtun
Ef fyrirtækið vex og eflist, getur fjárfestir síðar selt sinn hlut – t.d. til stærri fjárfesta eða í yfirtöku. Markmiðið er oft að fá margfalda ávöxtun á upphaflega fjárfestingu.
Ég er ekki engill en langar að læra
Skráðu þig og mættu á kynningarviðburð þar sem við förum yfir hvernig englafjárfestingar virka, hvernig þú getur uppgötvað spennandi fjárfestingatækifæri og tekið virkan þátt í að móta framtíðina í gegnum nýsköpun á Íslandi.